0
Fíflið
Fíflið tilheyrir vorguðunum s.s. Appolón eða Díonýsus. Grænn er litur mikillar orku og krókódýllinn mikils sköpunarkrafts. Naflastrengurinn tengir fíflið við hina miklu orku alheimsins. Mikil geta til endurfæðinga á andlegu, huglægu, tilfinninga, geð og líkamssviðum. Endurspeglar vilja til breytinga á þeim sviðum sem breyta þarf sérstaklega varðandi sjálfið.
I
Töframaðurinn
Gríski guðinn Merkúr var hinn vængjaði boðberi guðanna með vængi á hælunum. Hann táknar útbreiðslu geislandi orku. Hann ber með sér viljastyrk, visku og sköpunargáfu sem notuð var við sköpun heimanna. Hann sér ekki alltaf hvort nota skuli krafta sína fyrir aðra eða sjálfan sig og hann birst hverjum sem er á þann hátt sem hann kýs.
II
Prestynjan
Prestynjan er táknuð af gyðjunni Ísis, guði tunglsins. Persóna hennar er fullger og hefur fullkomið sjálfstæði. Hún er í góðum tengslum við innsæi sitt og getur treyst því algjörlega. Því hefur hún góða athyglisgáfu þegar kemur að því að hlusta á innri röddu og á auðvelt með að heila brostnar sálir.
III
Keisaraynjan
Keisaraynjan táknar gyðjuna Venus, og móðurgyðjuna. Hún líkamnar og býr yfir kveinleika í öllum myndbirtingum hans. Hún stendur fyrir fullkomnun, jafnvægi og fegurð, bæði innri og ytri. Hún getur birst sem ástkona, móðir, stjórnandi og viska. Hún er andleg og um leið með öfluga jarðtengingu.
IV
Keisarinn
Keisarinn hefur liti guðsins Mars og með honum eru stóru Himalaya hrútarnir. Þá heldur hann á Möltukrossinum. Yfir honum býr reisn og tign þess sem ræður yfir umhverfi sínu. Hann býr yfir miklum sköpunar- og framkvæmdakrafti og getur brotið niður hindranir. Hann á auðvelt með að leggja nýtt fyrir sig en um leið byggir hann vald sitt á bæði hinu hefðbundna og hinu dulda.
V
Æðsti presturinn
Nautsmerkið er merki Æðsta prestsins. Hann er tengdur öllum fjórum frumefnunum, og er sjálfur með hið fimmta vakandi í sér. Hann hjúpar hið efnislega og áþreifanlega en býr jafnframt yfir þekkingu á hinu andlega og stjórnar kreddum. Hans hlutverk er að lýsa upp hið andlega myrkur.
VI
Elskendurnir
Elskendurnir sýn kvongun Keisarans og Keisaraynjunnar sem gefin eru saman af Einsetumanninum. Einsetumaðurinn er hulinn í klæðum sínum og táknar hann guðinn Merkúr. Þetta táknar að uppruni lífsins og allra hluta er okkur dulinn og tilurð lífsins er leyndardómur. Um leið er táknað hér þegar hið ólíka dregst hvort að öðru rétt eins og þegar maður og kona dragast saman eins og fyrir hulinn kraft og án þess að eiga um það val. Hér búa ástríður hjartans og vilji til að sameina það sem er sundrað.
VII
Stríðsvagninn
Stjórnandi stríðsvagnsins er kyrr og hugleiðir. Hann heldur á hinum heilaga kaleik sem stendur fyrir góða ávinninga og heppni. Hann metur allar upplýsingar og eigin vilja, eigin stefnu, áður en hann leggur af stað. Þegar hann leggur af stað er ekkert sem getur stöðvað hann né komist í gegnum brynju hans.
VIII
Aðlögun
Aðlögun táknar Vogarmerkið sem býr ekki bara yfir voginni sem vegur og metur alla þætti. Hún heldur líka á sverðinu mikla, sem hvílir odd sinn á tám hennar, sem nota má til að höggva á hnúta og framkvæma dóma. Þegar kvenlegt innsæi hennar hefur fundið rétta lausn framkvæmir hún snögglega og ákveðið án eftirsjár. Hún býr yfir fullkominni innri ró, frábæru jafnvægi og kyrrð hinnar skörpu greindar.
IX
Einsetumaðurinn
Einsetumaðurinn hefur hafið leitina að innri fullnægju og sitt eigið innra ljós sem leiðbeinir á veg leitarinnar. Hann hefur fundið sína ynnri fegurð og hún dugar honum svo vel að ytri veröldin getur virkað gráleit og óspennandi. Um leið og hann hefur lítinn áhuga á veraldlegu ríkidæmi getur hann verið saklaus gagnvart flækjum heimsins. Hann býr yfir hugrekki til að takast á við eigin skugga og skugga annarra. Leit hans leiðir hann um innri heima sem aðrir þora sjaldan til. Hann getur heilað sálir og borið fram sættir milli þeirra sem virðast ósættanlegir.
X
Gæfa
Gæfuhjólið snýst í miðju allra hluta og fer sína leið þrátt fyrir eldingar og storma lífsins. Það hefur aðganga að öllu sem það þarfnast og gefur af gleði. Það hefur áhrif á bæði veraldleg gæði og andlega visku þar eð því fylgja bæði Sphinx og krókódíll.
XI
Losti - Styrkur
Upprunalega er Major Arcana XI nefnt Styrkur en í Thoth er það nefnt Losti. Í báðum tilfellum er um mikla orku að ræða en í hinu síðarnefnda er meiri leikur og lífsgleði. Hér er kraftur, ástríður, næmni, lífsgleði og reynsla táknuð með nakinni konu sem situr á marghöfða ljóni og heldur á hinum heilaga kaleik.
XII
Hangandi maðurinn
Hinn hangandi maður er negldur á staur, hangandi þannig að höfuðið vísar niður. Enginn viljastyrkur af hans hálfu getur losað hann án þess að hann falli á höfuðið. Engin sköpun kemst að í höfði hans og hann er blindur á alla framþróun. Hann hefur sjálfur komið sér í þessa stöðu, sjálfur neglt sig upp í trú á ágæti þess, blindur á það sem hamlar honum.
XIII
Dauði
Dauðinn táknar ytri umbreytingar en ekki endalok lífs þíns. Hann táknar óvæntar ytri breytingar, oft óumbeðnar sem þú hefur ekki vald yfir, rétt eins og Turninn er hið sama nema í innri verund þinni. Hér er oft bent til þess að gott væri að leysa upp sambönd sem valda hindrunum eða skaða og endurmeta ytri þætti lífs síns.
XIV
List
Hér blandast öll frumefnin saman af næmni og ákveðni og þekkingu. Hér er gullgerðarlistin notuð til að sameina ólík öfl saman í eitthvað nýtt og heildrænt. Hér ríkir innri kyrrð og yfirvegun sem er nauðsyn til andlegrar sköpunar og smíði nýrra hluta.
XV
Djöfullinn
Djöfullinn er hér tákngerfingur guðsins Pan (Dionýsus) en ekki hins betur þekkta djöfuls kristninnar. Pan er guð karlmannlegrar orku, viljann til að njóta sjálfs sín og koma vilja sínum í framkvæmd. Hann hjúpar getuna til að gleyma sér á góðri stund, við söng og glens. Einnig er hann tákngerfingur hins holdlega, sérstaklega karlkyns holdgun þess. Pan nýtur þess aukin heldur að birtast í mismunandi formum og leika sér með persónugervinga.
XVI
Turninn
Turninn er hinn andlegi hreinsunareldur skaparans sem hann sendir með sínu alsjáandi auga og er þess umkomið að umbreyta öllum þínum gömlu hugmyndum og kreddum í rústir. Af rústunum vex óhjákvæmilega eitthvað nýtt, eitthvað gott, eitthvað sem þú hefðir annars misst af. Til að rækta nýjan akur þarf stundum að brenna hinn gamla til að finna ferska byrjun.
XVII
Stjarnan
Stjarnan á stjörnumerkið Vatnsberann. Hér er á ferð orkan sem tekur við innblæstri hins guðlega og djúpa. Öðrum fæti er jarðtenging við hyldýpi lífsins og sálarinnar en hinum fætinum er tengsl við hið guðlega og hins djúpa innsæis. Í báðum hliðum er ausið af og í, blandað saman og hugleitt. Hér er innsæi, kyrrð, friður og blíða.
XVIII
Máninn
Máninn er minnkandi og vegurinn liggur milli tveggja turna og mynda þeir hlið með tveim vörðum sem eru bæði ógvekjandi og traustir í senn. Í skuggunum eru raddir sem draga úr, í vatninu eru skuggar sem vekja ótta. Raddir geta talað illa um mann og ótti getur hindrað mann. Eina leiðin er áfram og til að komast framhjá vörðunum má maður ekki hika.
XIX
Sólin
Sólin skín á öll stjörnumerkin sem tákna alla fleti þína og alla þína daglegu tilveru. Í miðju blómstrar rós þekkingar þinnar sem nú nýtur sín og börnin sem dansa nakin í grasinu er hið fullkomna jafnvægi milli allra hinna ólíku þátta lífs þíns. Hér ríkir gleði og líf.
XX
Eilífð - Dómsdagur
Eilífð heitir stundum Dómsdagur. Hér er gyðjan Nut sem breiðir fyrir himininn og opnar fyrir stjörnuskin næturinnar. Þegar spilið heitir Dómsdagur er engill Guðs sem blæs í lúður og hinir föllnu rísa.
Hér er ekki pláss fyrir blekkingar og ekki pláss til að dragnast með óþarfa í lífi sínu. Hér er ekki hægt að miða við úr sér gengnar hugmyndir né bælast af eigin syndum. Hér er sýnin skýr, oft ný og uppljómandi, og umfram allt má nú meta líf sitt og fólkið í því á þann hátt að engar blekkingar ríkja. Héðan er ekki aftur snúið.
XXI
Alheimurinn
Hér lýkur ferðalagi Fíflsins, sem anar áfram um lífið og treystir aðeins innsæi sínu og fífldirfsku til að kanna lífið. Hér sér hann með auga Horusar, hvernig lífið er, hvernig veröldin varð til, og hann finnur hvernig hann er aðeins dropi í hafinu, hafið dropi í honum. Hér býr reynsla og þekking sem mölur og ryð geta ekki eytt.
1 Bikar
Ás
Innri fegurð er tjáð án áreynslu. Hið fínlega fær að njóta sín og lýsa upp hið sterka. Gnægtir hjartans gefa af sér án eftirsjá né von um endurgjöf. Opinská og kærleiksrík sál kallar fram hið besta í öðrum.
2 Bikar
Kærleikur
Þegar manneskja elskar sjálfa sig verður hún aðlaðandi í augum annarra. Að sættast við sjálfan sig og sýna getu til að helga sig maka sínum eða ástvini, byggt á sjálfsvirðingu, opnar fyrir rík gagnkvæm tjáskipti. Hér ríkir fegurð og innri ró.
3 Bikar
Allsgnægtir
Hér er nóg af kærleika bæði hjá þér og þeim sem eru í kringum þig. Þú þarft engum brögðum að beita til að fólk laðist til þín eða til að fá aðra til einhvers: Kærleikur þinn og sanngirni skapar gott jafnvægi við aðra í þínu lífi.
4 Bikar
Lúxus
Styrkur þinn felst í kærleika sem sprettur úr innri lindum sálar þinnar. Gættu þess að sumir í umhverfi okkar geta aðeins tekið við smáum skömmtum í senn. Þú býrð yfir krafti sem sameinar aðra í umhverfi þínu ef þú vilt.
5 Bikar
Vonbrigði
Eitthvað er að í jafnvægi þínu. Kærleikur þinn er brothættur og hið efnislega hefur náð stjórn á þínu innra ástandi, en því ætti að vera öfugt farið. Væntingar eru ekki í góðu jafnvægi og eitthvað hefur sært þig eða brugðist þér. Héðan er leiðin aðeins upp á við.
6 Bikar
Unaður
Það er oft þess virði að taka áhættu í lífinu sérstaklega þegar eigin kynferði og ástríður eru í pottinum. Hér er búið að vinna bug á óttanum við brostnar væntingar og þú ert tilbúinn að njóta hæfileika þinna og smekks til fulls.
7 Bikar
Svall
Hér er skuggi fallinn á lífsgleðina og einhver mistök eða brostnar væntingar eru enn ríkar í huga þér. Þú reyndir að grafa gömul sár og líta framhjá þeim í stað þess að heila þau og þau neita því að gróa til fulls. Því hefur kraftur þinn dvínað og þér hættir enn til að horfa framhjá sárunum og leita lífsfyllingar í yfirborðshlutum.
8 Bikar
Deyfð
Leti og afneitun ásam of mikilli sjálfselsku dregur úr lífskrafti og gleði. Með því að lifa of hratt og í yfirborðskenndri gleði eða svalli dregur maður úr eigin gildi. Of mikilli orku er sóað í hluti og skemmtun sem ekkert gefur af sér og ekkert skilur eftir nema sársauka og þannig hvöt til að halda áfram í vondri hringekju. Þessi stöðnun er ekki góð fyrir þig.
9 Bikar
Hamingja
Hér ríkir innri ró sem sá aðeins finnur sem hefur bæði lifað hinu óheilbrigða lífi og einnig leitað óþægilegra svara að innan. Hér er hið heilaga jafnvægi milli hins andlega og hins veraldlega og ekkert fær haggað þessari innri ró, hæg og sterk lífsgleði ríkir og ánægja með umhverfi sitt. Mikill styrkur býr hér til að móta umhverfi sitt með óskinni einni.
10 Bikar
Offylli
Hin innri fegurðu fínleikans og ytri fegurð áræðni og styrks geislar út frá sér í góðu jafnvægi. Hér eru allir þættir lífs þíns og allir meðlimir þess í réttu jafnvægi. Þú þarfnast einskis og hefur fundið sjálfan þig og hefur margt að gefa öðrum. Enginn kemst að þér til að særa þig sem ekki er verðugur og þeir sem gleðja þig dragast til þín.
11 Bikar
Prins
Persónugervingur hinna sterku ástríðna og lífsgleði. Hann er vinur vina sinna og mikill félagi. Oft eru ástríður hans miklar og hann getur þurft að vinna í að stýra þeim: Þegar hann temur ástríður sínar getur hann hvað sem er á láði og lofti.
12 Bikar
Prinsessa
Persónugervingur hennar sem dansar við lífið. Hún er tilfinningalega frjáls og sál hennar hrífst af fegurð. Hún miðlar fegurð, fínleika og reisn. Hún lætur ekki binda sig né inniloka.
13 Bikar
Riddari, Konungur
Persónugervingur góðra samskipta og heilinda. Hann metur fjölskyldubönd mikils og leggur fæð á sviksemi og fals. Allir sem hann telur vini sína teljast líka til fjölskyldu hans og hann leggur einlægni og innsæi í samskipti sín.
14 Bikar
Drottning
Persónugervingur innri fegurðar og kyrrðar. Hún þekkir unað skilningarvitanna og kann á leynda afima hjartans. Hún kann að vera dul og ræður hvað hún sýnir, hverjum og hvenær.
1 Skildir
Ás
Hér er kominn hinn heili maður, heil sál í hraustum líkama. Hér er sálin sterk og andinn bjartur og skiptir engu hvort líkaminn er veikur eða sterkur því andinn sem drífur hann getur sigrast á öllum sínum ytri veruleika og drifið allt áfram. Hér er bara gróska og jákvæðni að verki.
2 Skildir
Breytingar
Lífið er síbreytilegt, fljótið sem er alltaf á sínum stað breytist á hverri sekúndu sem líður. Ekkert er varanlegt en samt er lífið alltaf þarna. Fjöllin hafa vakað í þúsund ár en á hverjum degi vakna þau sem ný. Þú þekkir hið gamla og þú býst við hinu nýja, ekkert fær komið þér úr jafnvægi því þú þekkir lífið og treystir því: Þú getur því allt sem þú vilt. Breyting og kyrrstaða eru jöfn fyrir þér.
3 Skildir
Vinnuferlar
Þú átt létt með að vinna og gefur þig allan í þau verk sem þú tekur að þér. Þú krefst mikils af þeim sem taka þátt í verkefnum með þér en þú hefur efni á því vegna þess að þú krefst hins sama af þér. Þú getur því tekist á við erfið verkefni og þú bakkar ekki úr þeim fyrr en þú hefur náð árangri.
4 Skildir
Kraftur, vald
Allt er á sínum stað, hreint og beint. Enginn óþarfi er til staðar, ekkert sem skemmir fær að komast að. Undirstaðan er trygg og traust. Persónuleikinn er fastur fyrir og stundum stífur en reynir að vera sanngjarn. Akrarnir eru sánir og uppskeran er vís. Stundum þarf að muna að vinátta er betri en eignir.
5 Skildir
Áhyggjur
Samskiptin í lífi þínu eru orðin öfugsnúin. Þú nærð ekki að fá skilning og þú nærð ekki að skilja aðra. Samskiptastíflan virðist aðeins stækka og ekki virðist vera auðveld leið úr vandanum. Orkan er mikil og sterk en virðist öll vera öfugsnúin.
6 Skildir
Velgengni
Hvötin til aðgerða rís upp úr djúpri þörf í meðvitundinni og krefst ytri tjáningar og sköpunar. Hér ríkir nauðsyn þess að líta vel á hvatir sínar og skilja vel hvert maður vill stefna því um leið og lagt er af stað verður ferðalagið mjög öflugt. Þú býðr yfir þekkingu allra þeirra þátta sem þekkja þarf til góðs árangurs.
7 Skildir
Misbrestur
Væntingar um ósigur og mistök eru ráðandi í huga þér og halda bæði aftur af þér og fá þig til að framkalla það sem þú óttast, hvort heldur í ytri aðstæðum s.s. frama eða heilsu. Þér hættir til að hika og jafnvel bakka, ekki vegna ótta heldur vegna neikvæðra væntinga. Þetta sprettur af einhverju í tilfinningalífi þínu sem þú gætir sigrast á og þá skapað hið gagnstæða: Framkallað árangur með trúna eina að vopni.
8 Skildir
Forsjálni
Forsendur og eiginleikar sem lengi hafa legið í dvala eða handan við hornið eru að komast upp á yfirborðið. Hæfileikar þínir hafa þroskast vel og smámsaman eru möguleikar þínir að blómstra og opna þér leiðir. Þú átt nú auðveldara með að þróa vel samneyti þín og sambönd en ekki síður frama þinn og störf. Þú lifir í góðu jafnvægi við sjálf þitt, væntingar þínar, námsgetu þína og fólkið í lífi þínu.
9 Skildir
Ávinningur
Kærleikur, viska og sköpunarkraftur koma hér saman í eitt. Ástríðufullur sköpunarkraftur, einstök nákvæmni og virðing fyrir efniviðnum gera þér kleift að skapa frábært verk og vinna frábært starf, sérstaklega ef það hefur dýpri merkingu. Þú vilt helst ekki starfa að þáttum sem hafa litla innri merkingu eða gefa lítið til annarra. Þú sérð lífið í miklu stærra samhengi en þeir sem bara líta á ytra yfirborð.
10 Skildir
Auður
Tré lífsins sýnir alla þætti sem við þurfum til að ná árangri í tilfinningum, andlegum og veraldlegum þáttum. Jafnvægi ríkir milli fólksins í þínu lífi og gagnvart þér. Mikil gæði blasa við þér í veraldlegum málum og enginn skortur er. Hagsýni þín leyfir þér að njóta lífsins og öðrum líður vel í návist þinni. Sérstaklega er þetta svo því þú sérð auð í mörgu sem öðrum yfirsést.
11 Skildir
Prins
Hann er frjór og fullur orku. Hann er í jafnvægi við nátturuna, bæði í sjálfum sér og umhverfi sínu. Hann á auðvelt með skilning á tækni og viljastyrkur hans á sér engan líka: Kemst þótt hægt fari, og brýtur niður hindranir.
12 Skildir
Prinsessa
Hún er björt og hrein, frjó og tilbúin að gefa ávöxt lífsins. Þetta er þriðja móður spilið, hin eru "Keisaraynjan" og "Bikar Drottning". Hún felur í sér fullkomið jafnvægi milli hins karlmannlega og hins kvenlega og geislar af innri fegurð og ljósi. Engin neikvæðni getur dregið hana niður. Sköpunargáfa, hugmyndaauðgi og ferskleiki býr með henni.
13 Skildir
Riddari, Konungur
Hann er ímynd hreysti og fegurðar. Hann er góður félagi og heill á fé og heilsu. Hann gefur góð ráð og það sem hann gróðursetur gefur góðan ávöxt.
14 Skildir
Drottning
Hún er sjálfstæður jaxl sem kemst þangað sem hún ætlar sér. Hún hefur lokið við erfiða ferð og situr við þær allsnægtir sem hún þarfnast. Hún er sjálf frjósöm og þrifin. Ekkert er henni ómögulegt en hún kann líka að hvílast á milli áfanga.
1 Sverð
Ás
Hér er enginn efi heldur skýrleiki og ákveðni. Auðvelt er að greina hismið frá kjarnanum og taka ákvarðanir. Enginn getur blekkt þig þegar þú hefur greint málið og tekið afstöðu.
2 Sverð
Friður
Þú átt auðvelt með að taka ákvarðanir og greina á milli aðstæðna. Þú býrð yfir innri frið sem erfitt er að koma úr jafnvægi og ert frábær sáttasemjari sem finnur mjög auðveldlega það góða í flestum uppákomum. Þú átt auðvelt með að fyrirgefa.
3 Sverð
Sorg
Kvíði, áhyggjur og efi varpa skugga á skýrleika og ákvarðanatöku. Neikvæðar hugsanir leita á hugann og draga úr allan mátt. Samskipti við aðra eru óskýr og aðrir - hugsanlega hælbítar - hafa óæskileg áhrif.
4 Sverð
Vopnahlé
Sköpunargáfa þín er í fullkomnu jafnvægi og þú hefur góð tengsl við alla þætti í persónuleika þínum. Þú hefur gengið í gegnum erfiðleika, sérstaklega efa og óraunsæjan ótta, og sigrast á þeim. Þér eru allar leiðir færar. Mundu að vopnahlé er ekki endileg friður. Friður næst ekki með sigrum eða samningum heldur raunsæi og sanngirni.
5 Sverð
Ósigur
Gömul sár eru opin og þeim blæðir. Samræmið er allt á hvolfi og engin svör blasa við. Ótti við mistök og höfnun stjórna öllum gerðum. Óstjórn er viðvarandi og tilfinning fyrir lífinu er dauf. Of mikið er hugsað um framtíð og fortíð í stað þess að sjá það sem er til í nútíð.
6 Sverð
Vísindi, Fræði
Þú átt mjög auðvelt með að skipuleggja og gera áætlanir. Þú átt bæði gott með að greina skrefin sem taka þarf og tjá þau þannig að aðrir geti skilið þau auðveldlega. Jafnvel getur þú látið hið flókna og djúpa virka einfalt og auðskilið. Þú hefur ánægju af að læra nýtt og vinna úr því þannig að þú tileinkir það.
7 Sverð
Tilgangsleysi
Þú hefur í þér alla eiginleika til að meðtaka flóknar upplýsingar og vinna úr mismunandi aðstæðum. Þú hefur hæfileikann til að taka ákvarðanir hratt og framkvæma. EN: Þú hefur leyft neikvæðum efasemdar hugsunum að ná taki á þér. Þú ert fastur í hringiðu sjálfsefa, sjálfsgagnrýni, neikvæðra væntinga og svartsýni. Allt eru þetta smámunnir ef skoðaðir einn í einu en saman hafa náð að stöðva ferli þitt.
8 Sverð
Afskipti, truflun
Þú átt tvo valkosti og átt erfitt með að gera upp á milli þeirra því þeir virðast þér vera sambærilegir. Eigin efi og of miklar pælingar hafa deyft innsæi þitt sem annars ætti auðvelt með að gera upp á milli. Því meira sem þú pælir, því erfiðara er að gera upp á milli.
9 Sverð
Grimmd
Þú beitir sjálfan þig hörku og óvægni í dómum. Fullkomnunarárátta og sjálfsgagnrýni hefur lamað þig og veitt þér sársauka sem þú gætir vel lifað án. Þú hefur sett þér farveg án þess að spyrja hvort hann sé sá sem lífið styður við bakið á. Óákveðni og togstreita þreytir þig og rænir þig krafti.
10 Sverð
Eyðilegging
Það er hætta á því að þú missir allt. Hættan er kannski raunveruleg og kannski ímynduð en hugsunin um það tröllríður allri þinni vitund. Þú óttast ekki heldur hefur gengið út frá því sem vísu að allt fari úrskeiðis. Þannig hefur þú leyft neikvæðni og svartsýni að draga úr þér allan mátt.
11 Sverð
Prins
Innblástur krefst frelsis, sérstaklega frelsis frá kreddum og fastmótuðum hugmyndum. Hann er tilbúinn til að beita sig hörðu til að losna frá akkerum úreltra hugmynda til að finna sköpunargleði sinni útrás. Sambönd, kreddur og tilfinningar hamla honum ekki því hann metur frelsi meira en öryggis.
12 Sverð
Prinsessa
Hún leyfir ekki lífinu að halda aftur af sér og móta sig nema í þá átt sem hún sjálf kýs. Hún lætur ekki neikvæðni annarra, né sína eigin, hemja sig. Hún elskar lífið og dansar við það. Stundum þarf hún þó að stöðva dansinn og rifja upp markmið sín og endurmeta.
13 Sverð
Riddari, Konungur
Hann veit hverju hann vill áorka og hann stöðvar ekki fyrr en hann nær takmarki sínu. Hann á gott með að einbeita sér og missir aldrei sjónar á því sem hann einbeitir sér að. Hann er rökviss og á auðvelt með að laga sig að aðstæðum.
14 Sverð
Drottning
Hún býr yfir sterku innsæi til að setja skýr markmið og greina hismið frá kjarnanum. Að eignast afkvæmi er henni auðvelt og hún á létt með að bæði setja upp grímur og sjá í gegnum grímur annarra. Hún þarf að beita sjálfstjórn til að særa ekki með hreinskilni sinni.
1 Vendir
Ás
Á eftir sólinni er þetta næst öflugasta orkumerkið í Tarot. Ásinn í vöndum er gríðar kröftugur og hann getur brotið niður allar hömlur sem halda aftur af þér og þannig opnað dyr fyrir þeim farveg sem þú vilt taka þér, eða þeim breytingum öðrum sem þú óskar.
2 Vendir
Yfirráð
Einbeiting og vilji skapa mikla orku til að halda þangað sem óskað er og erfitt er fyrir nokkurn að standa mót. Hér er það sem þarf til að taka fyrstu skrefin í þá átt sem þú vilt stefna og þegar þú leggur af stað muntu fljótt sjá að þú ert á réttri leið og hindranir munu aðeins styrkja för þína.
3 Vendir
Dyggð
Líkami, hugur og sál eru í góðu jafnvægi sín á milli. Þá kristallast heilindi sem ekki munu leyfa neinar málamiðlanir. Ytri áhrif geta ekki hnikað þinni persónulegu orku af þessum sökum.
4 Vendir
Lúkning, fullnun
Klára verður hið gamla áður en tekist er á við hið nýja. Hér mætast harkan og blíðan í fullkomnu jafnvægi og opna leið til nýs upphafs. Gæta verður að viðhalda hinu fíngerða jafnvægi.
5 Vendir
Erjur
Endurnýjun er hæg og erfið, þyngsli sækja á sálina og athafnakraftur er lítill. Sköpunargáfan er óvirk og sjálfið er hlaðið efa og vantrú á sjálft sig.
6 Vendir
Sigur
Sköpunargáfa Ljóns og hamingja Júpíters mætast hér á miðri leið. Erfiðleikar eru að baki og opnast hefur leið til framfara og gleði. Kærleikur, nýsköpun, frjósemi og innsæi mætast hér á miðri leið og sameina krafta sína.
7 Vendir
Hugprýði
Hugprýði og hugrekki eru aðalsmerkin hér ásamt styrk til að framkvæma þann vilja sem að baki liggur. Hæfileiki til hagsýni og góðra áætlana er aðalsmerki þessara þátta eins og þeir birtast hér.
8 Vendir
Hraði, snerpa
Kristall sem getur endurvarpað ljósi í öllu regnbogans litum er ávallt fagur á að líta. Hann er einnig fastur fyrir og lætur ekki hagga við sér. Hann er fljótur til ákvarðana, er með á hreinu hver hann er og hvað hann stendur fyrir og á létt með að tjá sig. Ekkert hik er í honum og hann er ger til góðra verka.
9 Vendir
Styrkur
Hér mætast hinir leyndu þættir undir yfirborði sálar þinnar þinni einstöku greind og hæfileika til að skilja hið dulda. Hér getur vaknað ótti við hið dulda ef það ber með sér löngu gleymd atriði úr fortíðinni sem þú hefur ekki skilið áður. Ef þú notar greind þína og vilja til að horfa inn á við og skilja það sem þar er, mun kraftur þinn, innsæi þitt og lífsgleði vaxa.
10 Vendir
Kúgun
Hér er á ferðinni hið ískalda jafnvægi hinnar jákvæðu tjáningar og íhaldssemi þess sem vill fastar skorður og frekar hið gamla en hið nýja. Varast þarf að neyða sjálfan sig á hálar brautir sem vekja innri ótta því óttinn er meiri óvinur en ytri aðstæður. Einnig er mikilvægt að opna fyrir bælingar íhaldsseminnar og kenna þeim víðari sýn.
11 Vendir
Prins
Persónugervingur innra frelsis og áræðni. Hann hefur án hiks unnið sigra á sjálfum sér og býr yfir sköpunarkrafti og bjartsýni sem lýsir honum inn á nýja stigu.
12 Vendir
Prinsessa
Óttaleysi hefur fengist með því að horfast í augu við hætturnar og stara þær niður. Nú er auðvelt að takast á við breytingar og nýjar aðstæður því enginn ótti er fyrir hendi og sjálfsþekking veitir aukinn styrk.
13 Vendir
Riddari, Konungur
Hér er persónugervingur innri vaxtar og þróunar. Hann brennir neikvæðni í burtu með vendi sínum og setur sjálfan sig í veg fyrir andlegar hættur. Hann á auðvelt með að sjá jákvæðar hliðar og finna jákvæðar lausnir. Innsæi hans og athyglisgáfa opnar sýn í gegnum sortann.
14 Vendir
Drottning
Hér er ástkona sjálfsþekkingar. Hún hefur kannað eigin leyndardóma og öðlast skilning á mörgum leyndum afkimum sálarinnar. Hún hefur sjálf breyst á ferð sinni en á létt með að taka sér þá ásjónu sem auðveldar öðrum að nálgast sig og njóta innsæis hennar og skilnings. Hún á létt með samúð og meðúð og er ávallt fær um að sjá leiðir þar sem aðrir sjá mýri.