21.02.2012
Talnaspekin er ævalöng grein. Segja má að hún hófst þegar apar byrjuðu að telja á fingrum sér. Vitað er að mannapar sem ekki tala eins og við menn geta talið og vitað fjölda án þess að gefa tölustöfum heiti eins og við gerum.
Við sem ölumst upp við notkun tugakerfis í daglegu lífi þykir sjálfsagt að einn merkin einn, að þrír merki þrjá og að ellefu merki tíu plús einn. Til eru fleiri talnakerfi en tugakerfið en of langt mál að telja hér. Dugir hér að benda á að ekki er langt síðan menn vildu telja í tylftum.
Tölur heilla marga menn og margar konur. Segja má að áhugi fólks á tölum skiptist jafnt á milli kynja. Allir telja í huga sér, margir á fingrum sér og algengt er að fólk noti talnamynstur. Sumir segja að notkun talnamynsturs sé innbyggð í náttúruna og þá sérstaklega okkar sem teljumst til rándýra.
Hver kannast ekki við að ganga eftir gangstétt og telja gangstéttarhellurnar í huganum? Flestir hafa gert þetta en fáir tala um það. Við könnumst við bábyljur á borð við sjö, níu, þrettán, eða allt er þegar þrennt er.
Allir sem lesið hafa um dulspeki hafa heyrt talað um hin sérstöku talnahlutföll í Pýramídanum mikla í Egyptalandi. Fáir hafa heyrt hvernig taka má sömu hlutföll og heimfæra upp á næsta pulsuvagn eins og Umberto Eco gerði svo listilega í Foucaults Pendulum.
Allir sem gengið hafa í gegnum grunnskóla hér á landi hafa lært um Pýþagóras og þríhyrninga hans. Færri kannast við að hann var mjög umdeildur en jafnframt virtur heimspekingur í Grikklandi hinu forna.
Pýþagóras var ekki bara stærðfræðingur heldur mjög djúpt hugsi og andlega leitandi maður. Hann var heillaður af tölum, tónlist og alls kyns þekkingu. Þar er einmitt komin tilvísun í hvað heimspeki stendur fyrir: Leit að þekkingu og skilningi. Í raun eru allir sem leita skilnings á lífinu í eðli sínu heimspekingar.
Þessi virti stærðfræðingur heillaðist af mynstrum hvarvetna í náttúrunni og tilverunni allri. Leitaðist hann við að finna þessum mynstrum heimili í tölum og reiknaði út hlutföll of afstæður þessara talna á listilegan máta.
Hann er talinn upphafsmaður að þeirri talnaspeki sem mest er notuð á vesturlöndum í dag, þar sem hver bókstafur stafrófsins fær ákveðið númer frá 1 upp í 9. Þannig raðast stafrófið niður og skiptir þá engu hvort notað ar enska stafrófið, hið íslenska eða annað. Bókstafirnir fá því mismunandi talnagildi eftir því hve margir stafir eru í því og hvernig stafrófið er uppsett. Því fást ekki sömu tölur eftir því hvort nafnið "Þóra" er ritað eða "Thora".
Frá Kaldeu kemur annað talnakerfi sem einnig er mjög útbreitt og nýtur mikillar virðingar. Þetta kerfi telur einnig upp í 9 þannig að enginn bókstafur er númer 10 eða 12. Þetta kerfi raðar hins vegar bókstöfum niður eftir hljómfalli þeirra eða hvernig munnurinn mótar hljóðið.
Margir líta frekar til þessa kerfis af þeirri ástæðu að stafróf raðast líkar niður á tölurnar eftir tungumáli. Þannig er auðveldara að ákveða fyrir okkur á Íslandi hvar ö kemur niður á talnaröðina en að nota enska hljómfallið. Hér á spamadur.is hefur þetta verið gert, þannig að Kaldea kerfið var notað til grundvallar og íslenskum bókstöfum raðað niður eftir hljómfalli.
Kaldea (Chaldea) er það landsvæði sem við þekkjum best undir heitinu Írak. Kaldea er í raun suðurhluti Íraks og aðeins út fyrir það s.s. þar sem Kuveit er syðst við Persaflóann.
Í Kaldeu var þróuð fyrsta stjörnuspeki vesturlanda fyrir um fjögur þúsund árum og talnaspekin var þróuð samhliða. Á sama tíma þróuðust þar margar af þeim mýtum og dulspeki pælingum sem síðar - og samtímis - þróuðust í Egyptalandi. Margar þessara hugmynda hafa ratað í Tarot spilin eins og við þekkjum þau í dag.
Sumir hafa til að mynda haldið því fram að Tarot spilin hafi verið sú leið sem farin var til að binda andlega þekkingu og skilning í bók með myndmáli á svo listilegan máta að nota mætti til að skoða framtíð, nútíð og fortíð hjá fólki.